


Endurreisn efnahagslífsins byggir á hraðri viðspyrnu ferðaþjónustu
Jóhannes Þór Skúlason
Hér á ársskýrsluvef SAF fyrir árið 2021 má sjá ýmis gögn um innra starf samtakanna og samskipti við stjórnvöld, ásamt ítarlegri greiningu á ferðaþjónustuárinu 2021.
Eftir tveggja ára tímabil þar sem heimsfaraldur og sóttvarnaráðstafanir hafa komið í veg fyrir eðlilega starfsemi ferðaþjónustu í heiminum öllum lítur nú loks út fyrir að nokkuð bjartara geti verið framundan. Samtök ferðaþjónustunnar hafa á þessum tíma reynt að sinna hlutverki sínu sem hagsmunavörður fyrirtækja í ferðaþjónustu sem best, en sem oft áður hafa samskipti við félagsmenn samtakanna verið algjör lykilþáttur í árangri sem náðst hefur. Ábendingar, gagnrýni og hugmyndir félagsmanna hafa á þessu tímabili skipt enn meira máli en áður, enda gríðarmikilvægt fyrir stjórn og starfsfólk SAF að hafa hið sterka bakland félagsmanna þétt að baki sér í samtalinu við stjórnvöld um framgang hagsmunamála greinarinnar.
Eins og ætíð hefur þar sumt gengið vel og annað lítið þokast. Samtal SAF við stjórnvöld um stuðningsaðgerðir má segja að hafi almennt skilað góðum árangri, og sjá má tölulegt yfirlit þeirra hér á vefnum. Hið sama má segja um ýmis stök mál sem hafa mjög víða skírskotun fyrir greinina, eins og kerfisbreytingu sem var gerð á tryggingakerfi ferðaskrifstofa sem mun til framtíðar létta töluvert á fjárbindingu fyrirtækjanna.
Einna mestum vonbrigðum veldur hins vegar að mál sem SAF hafa lengi þrýst á stjórnvöld með, t.d. varðandi skilvirkara eftirlit með ólöglegri starfsemi, einföldun rekstrarumhverfis fyrirtækja í greininni, skýrari sýn á gjaldtöku og aðgengi, sem og og ýmis önnur mál er varða betri samkeppnisstöðu greinarinnar innanlands og alþjóðlega, hafa lítt þokast áfram í stjórnkerfinu. Ljóst er að stjórnkerfið þarf að taka sig verulega og hratt á varðandi ýmis þessara mála.
Sérstaklega veldur vonbrigðum hve fá skýr skref hafa verið tekin á síðasta ári til að efla viðspyrnu ferðaþjónustunnar, sem allir greiningaraðilar um efnahagsmál hafa þó lagt fram sem algert grundvallaratriði fyrir efnahagslega endurreisn landsins eftir faraldurinn. Það er eftirtektarvert að þrátt fyrir að tæpt ár sé nú liðið frá því að SAF gáfu út Vegvísi um viðspyrnu ferðaþjónustu til 2025 hafa fá mál litið dagsins ljós hjá stjórnvöldum sem nýta þær tillögur sem þar koma fram. Það er von samtakanna að stjórnmálin sjái sér hag í að nýta þær tillögur sem þar koma fram á næstu mánuðum, enda er ljóst að endurreisn stærstu útflutningsatvinnugreinar landsins og endurvakning jákvæðs þjónustujöfnuðar og milljarðatekna samfélagsins af greininni hlýtur að vera forgangsverkefni stjórnvalda eftir faraldurinn.

Ferðaþjónustuárið 2021
Kórónufaraldurinn hefur geisað í tvö ár og tilvist samfélagsins alls verið mörkuð af honum. Engin atvinnugrein á jafnmikið undir frjálsri för manna milli landa og ferðaþjónusta. Sóttvarnartakmarkanir hafa leitt ferðafrelsi milli landa inn á óheillavænlega braut og valdið gríðarlegri röskun á ferðaþjónustu í heiminum.
Ferðalög milli landa jukust sannanlega á seinni hluta ársins 2021 borið saman við árið 2020. Samkvæmt Alþjóðaferðamálastofnuninni( UNWTO) fækkaði hins vegar ferðamönnum á heimsvísu um þúsund milljónir annað árið í röð, borið saman við árið 2019 en þá voru þeir um 1.464 þúsund talsins.
Sérfræðingar UNWTO telja að alþjóðleg ferðaþjónusta eigi ekki eftir að ná fyrri styrk fyrr en 2024. Þá gera þeir ráð fyrir meiri eftirspurn ferðamanna eftir fámennum áfangastöðum í dreifbýli þar sem hægt sé að stunda afþreyingu undir berum himni. Það veit á gott fyrir Ísland sem áfangastað.
Innra starf
Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar 2021 var haldinn í apríl. Fundurinn var rafrænn vegna samkomutakmarkana og kosið var til stjórnar með rafrænum hætti.
Stjórn samtakanna hittist á 11 formlegum fundum á starfsárinu, en stjórn hafði einnig með sér mikil óformleg samskipti vegna mats og eftirfylgni með verkefnum og stöðu aðgerða vegna faraldursins.
Nýir félagsmenn tóku sæti í fagnefndum á aðalfundi, en starf fagnefnda samtakanna er grundvallarstoð í starfi þeirra. Sömuleiðis hafa orðið breytingar á fulltrúum samtakanna í nefndum og ráðum á vegum ýmissa samstarfsaðila.
Á skrifstofu SAF störfuðu sex starfsmenn í 5,4 stöðugildum, en einnig eiga SAF mikið og gott samstarf við skrifstofu Samtaka atvinnulífsins um ýmis verkefni.


Vegvísir um viðspyrnu til 2025
Það hvernig rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni ferðaþjónustu verður háttað á endurreisnartímabilinu næstu fjögur ár mun því skipta höfuðmáli varðandi það hversu hratt verðmætasköpun ferðaþjónustu fyrir samfélagið getur vaxið.
Til að styðja við öfluga endurreisn gáfu Samtök ferðaþjónustunnar út Vegvísi um viðspyrnu ferðaþjónustu til 2025 í maí 2021.
Í vegvísinum eru dregnar saman mikilvægar áherslur um starfsumhverfi atvinnugreinarinnar og tillögur að aðgerðum stjórnvalda sem eru nauðsynlegar til að flýta viðspyrnu hennar, styðja við endurreisn efnahagslífs og takmarka neikvæð og langvarandi samfélagsleg áhrif faraldursins.
Vegvísirinn er birtur á vefnum Vidspyrnan.is. Í tengslum við vegvísinn birti SAF einnig árangursmælaborð þar sem ýmis mælanleg markmið sem tengjast viðspyrnunni og framtíðarsýn ferðaþjónustunnar eru sett fram til ársins 2025.
Samskipti og samstarf
við
stjórnvöld og hagaðila
Venju samkvæmt áttu SAF í miklum samskiptum við stjórnvöld og stofnanir á árinu. Samtökin veittu mikinn fjölda umsagna við frumvörp og reglugerðir ásamt því að vinna að úrlausn mála fyrir aðildarfyrirtæki.
Formleg og óformleg samskipti SAF við stjórnvöld hafa verið mikil á árinu og SAF átti m.a. mikilvæga aðkomu að tillögugerð, umsögnum og breytingum á stuðningsaðgerðum stjórnvalda vegna heimsfaraldursins.
Samstarf SAF við systursamtök á Norðurlöndum og í Evrópu var áfram sterkt og enn mikilvægara en fyrr, enda ferðaþjónusta um allan heim í sömu glímu.
Á vegum SAF eru einnig unnar greiningar og efni um ýmis mál sem styðja og styrkja málflutning samtakanna á ýmsum vettvangi, og njóta samtökin þar góðrar samvinnu við ýmsar stofnanir og fyrirtæki.


Hæfnisetur ferðaþjónustunnar
Á undanförnum árum hafa SAF látið hæfni, mennta- og fræðslumál sig miklu máli varða, enda er hæfni stjórnenda og starfsmanna forsenda aukinnar verðmætasköpunar í greininni. Ferðaþjónustan hefur orðið fyrir miklum skaða af völdum faraldursins og mikilvægt er að viðhalda og bæta þekkingu og hæfni í greininni.
SAF eiga mikið og gott samstarf í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar en SAF hafa leitt þá vinnu frá árinu 2017 í stýrihóp Hæfnisetursins sem vistað er sem verkefni hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins til ársins 2023. Fjölbreyttur hópur hagaðila úr fyrirtækjum innan SAF og samstarfsaðila kemur að starfi Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, auk samstarfs við fræðsluaðila, og skóla víða um land.
Á vef Hæfnisetursins má sjá helstu verkefni sem unnið hefur verið að í fræðslumálum greinarinnar á árinu og nálgast verkfærakistu fyrir ferðaþjónustuaðila.
SAF í fjölmiðlum
Eitt mikilvægasta hlutverk Samtaka ferðaþjónustunnar er að vera talsmaður atvinnugreinarinnar út á við, taka virkan þátt í opinberri umræðu um greinina og koma á framfæri upplýsingum, t.d. um rekstraraðstæður fyrirtækja, þróun ferðaþjónustu og framtíðarsýn og mikilvægi hennar fyrir efnahag og lífskjör á Íslandi.
Stjórn og starfsfólk SAF vinnur að þessu hlutverki með afar mikilvægum stuðningi félagsmanna samtakanna sem efla málefnalega umræðu um ferðaþjónustuna, m.a. með greinum, viðtölum og þátttöku í umræðu á samfélagsmiðlum.
Hér má sjá yfirlit tekið saman af Cohn&Wolfe um hlut SAF um fjölmiðlaumfjöllun sem birtist á ýmsum miðlum á vefnum árið 2021.


Viðburðir á vegum SAF
Eins og á fyrra ári fóru viðburðir á vegum SAF að miklu leyti yfir á rafrænt form, en samtökin stóðu fyrir fjölda félagsfunda, kynninga, upplýsingafunda á árinu.
Samtökin stóðu einnig fyrir viðburðum í góðu samstarfi við ýmsa aðila, þar á meðal SA, Íslenska ferðaklasann, KPMG, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Íslandsstofu og Ferðamálastofu svo fáeinir séu nefndir. Þá nýttu samtökin möguleika á útsendingu
Aðalfundur SAF var haldinn á rafrænan máta en Ferðaþjónustudagurinn var haldinn í Silfurbergi í Hörpu september þar sem formenn stjórnmálaflokka sátu fyrir svörum um áskoranir og stefnu í málefnum ferðaþjónustu tíu dögum fyrir alþingiskosningar 2021.